Hlutverk Íslandsstofu

 

 

Í gegnum Evrópusamstarf hefur Íslandsstofa fylgst með áherslu ESB á að auka þátttöku smærri fyrirtækja í opinberum útboðum og hvernig samstarfsaðilar okkar erlendis hafa sérhæft sig í þjónustu á því sviði. Þeir aðstoða fyrirtæki við að vakta útboðsvefi, mynda tengsl við kaupendur og hugsanlega samstarfsaðila og jafnvel við að skrifa tilboð.


Í kjölfar aukins áhuga íslenskra fyrirtækja á opinberum útboðum erlendis ákvað Íslandsstofa að skoða hvaða aðstoð hún gæti veitt og hvernig starfsmenn gætu aukið þekkingu sína og fyrirtækjanna á þessu sviði. Niðurstaðan varð að taka þátt í verkefninu Tenders for SMEs (T4SME) með samstarfsaðilum í Enterprise Europe Network í sjö Evrópulöndum.


Verkefnið miðar m.a. að því að safna og miðla upplýsingum um útboð í öðrum löndum og fræða fyrirtæki um hvaða tækifæri og hindranir felast í þátttöku í opinberum útboðum.


Verkefninu er einnig ætlað að vekja athygli á því að útboð geta gefið fyrirtækjum tækifæri til að koma á framfæri nýjungum og nýsköpun. Forsendan er að kaupendur séu meðvitaðir um að vera ekki með of nákvæmar lýsingar í útboðsgögnum heldur gefa fyrirtækjum tækifæri á að bjóða fram ólíkar lausnir á þörfum kaupandans.


Þetta verkefni veitir Íslandsstofu tækifæri á að koma á framfæri upplýsingum til fyrirtækja og vonandi vekja áhuga einhverra sem að öðrum kosti hefðu ekki íhugað þann möguleika að bjóða í verkefni erlendis.

 

Nánari upplýsingar veitir Erna Björnsdóttir, erna@islandsstofa.is